Er öllu afmörkuð stund? III
Rúmmálsreikningur eftir Solvej Balle er bókmenntaverk sem opnar hugarvídd tímans eða tímavídd hugans. Söguhetjan veit að 18. nóvember endurtekur sig í sífellu. Vísarnir á veggklukkunni ganga daglega sinn gang en það dugar ekki til því sami dagurinn kemur alltaf aftur en enginn tekur eftir því nema Tara sem hefur hrokkið úr takt við tímann og þar með samfélagið sitt.
Sama laglínan spilast aftur og aftur eins og þegar nál er föst í rispu á vinylplötu. Solvej Balle fékk hugmyndina að þessari bók árið 1987 og reyndi að losa sig við hana en uppgötvaði að lokum að eina leiðin til þess væri að skrifa söguna.
Hver kafli í bókum Solvej Balle telur dagana frá því tíminn varð viðskilja við Töru Selter. Ég hef þegar skrifað skrifað tvo pistla undir heitinu Er öllu afmörkuð stund? um Rúmmálsreikningur, bók I og bók II, og held því nú áfram hér. Millifyrirsagnir eru í stíl við fyrirsagnir í bókinni, hér merktar þeim dögum sem ég skrifa þetta.
Ég mæli hiklaust með lestri á bókaflokki Balle.
#151 dagur ársins 2025
Ég festi í gær, síðasta dag maímánaðar, kaup á bókinni Rúmmálsreikningur III eftir Solvej Balle í þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Bókaútgáfan Benedikt gefur út. Höfundur fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir fyrstu þrjár bækurnar. Fyrsta bókin var einnig tilnefnd á úrvalslista Booker-verðlaunanna 2025. Enski þýðandinn Barbara J. Haveland sagði að það hefði verið mikil áskorun að þýða bókina, því höfundurinn hefur pælt í hverju smáatriði. Það sama á vitaskuld við um íslensku þýðinguna.
#235 dagur ársins 2025
23. ágúst (Hundadagar enda. Nýtt tungl): Öllu er afmörkuð stund en endrum og eins taka dagarnir óvæntan snúning eða leggja lykkju á leið okkar gegnum lífið. Tímalykkjur söguhetjunnar í bókinni koma lesandanum á óvart og fullyrt var í kynningu á sjöttu bókinni í þessari röð, sem kom út í Danmörku 20. ágúst, að þar hafi vendingar í sögunni jafnvel komið sjálfum höfundinum á óvart. Það sannar að Solvej Balle lifir sig inn í tímahugtakið, rannsakar það og uppgötvar það sem áður var henni hulið.
Hvert og eitt okkar fær skammtaðan tíma í tilverunni. Hvað er best að gera, hvernig er gott að lifa lífinu andspænis tímanum? Hvar er allt sem horfið er?
Við vöknum upp hvern dag og búumst við að halda áfram þar sem frá var horfið, allt sé á sínum stað á heimilinu og flestallt í samfélaginu. Hvað ef svo er ekki? Færir rithöfundar eins og José Saramago og Solvej Balle breyta grunnforsendum og kanna í skáldsögu hvað gerist í kjölfarið. Skapa óreiðu með því að taka einhverja reglu eða lögmál úr sambandi og skoða afleiðingarnar í smáatriðum. Þau gefa lesandanum innsýn í þætti sem vandasamt er að hafa aðgang að nema með óvenjulega þroskuðu ímyndunarafli og færni til að miðla.
Hvað gerist ef allir yrðu blindir nema ein persóna, hvað gerist ef dauðinn hættir að vitja okkur spurði Saramago og skrifaði um í bókum sínum. Balle spyr: Hvað gerist ef sami dagurinn byrjar alltaf aftur upp á nýtt og lífið á jörðinni endurtekur sig hjá öllum nema stöku persónum eins og Töru Selter? Hvernig verður líf hennar, hvað hugsar hún, hvernig líður henni, hvað tekur hún til bragðs? Hvað segir þessi breyting okkur um tímann, persónur og leikendur?
Efni bókanna varpar ljósi á manneskjuna sem veru í tíma með því að taka aðalsöguhetjuna út fyrir rammann, lyfta henni úr daglega lífinu. Textinn vekur undrun lesanda og knýr hann til að hugsa um eigið líf í samhengi tímans.
Viðhorf okkar til tímans hefur áhrif á hvernig okkur líður. Er ég alltaf að missa af einhverju? Gæti ég komið fleiru í verk? Þessar spurningar vísa á streituna í daglega lífinu. Margir bugast í því skipulagi sem víða ríkir í vestrænum borgum. Er allt á áætlun? Er framvindan eins og við er búast?
#236 dagur ársins 2025
Söguhetjan Tara safnar dögum sem allir eru merktir 18. nóvember. Hún finnur þó fleiri sína líka en þau eru líka undantekningar eins og hún.
Mér finnst magnað þegar skáldsögur hafa áhrif á hversdagslega upplifun mína. Bækurnar Rúmmálsreikningur I, II, III eru af þessum toga, þær opna hug minn fyrir alls konar þráðum tímans og pælingum um tímann. Sennilega væri best að hætta að troða öllu og öllum í sömu stundatöfluna, á sama hraða með kröfum um afurðir og afköst.
… Allt fram streymir, allar ár renna í sjóinn, allt hefur sinn tíma, ekkert er nýtt undir sólinni, allt líður hjá, allt hverfur en þó ekki! Allt skilur spor eftir sig og er óafmáanlegt í þeim skilningi …
Við höfum ekki öll sama tímaskyn, við nemum ekki öll tímann á sama hátt. Taugakerfi tegundanna hefur áhrif og einnig er tímaskynið persónulegt eftir kyni, aðstæðum, aldri, háttum, o.s.frv. Manneskja getur til dæmis ekki gripið fugl eða flugu nema með brögðum.
Ég held að það yrði mjög gagnlegt að fá meiri umræðu í samfélaginu um tímahugtakið, hugsa og tala meira um tímann, viðhorf okkar til hans og umgengni við hann. Það er alltaf eins og við séum að missa af einhverju. Áróður er uppi um að Íslendingar megi engan tíma missa, þeir þurfi að drífa sig að virkja meira, koma böndum á ár, fossa, vind og háhitasvæði til að safna upp orku til að nýta og selja og auka hagvöxt. Engan tíma megi missa.
Í bókum Balle er einn þráðurinn spurningin um nýtingu, hvort mannkynið sé að éta upp auðlindir jarðar sem vissulega eru takmarkaðar. Okkur ber að ganga hægt um gleðinnar dyr og rækta nægjusemi með okkur – eru skilaboð sem ég skynja í bókunum.
#237 dagur ársins 2025
Ég þarf ekki að segja ykkur hvernig atburðarásin er í bókunum um Töru Selter, þið getið bara lesið það sjálf. Ég vildi bara segja ykkur þetta hér:
Solvej Balle er afburðagóður höfundur og verk hennar Rúmmálsreikningur er einstaklega hugvitssamlega skrifað. Efnið knýr lesendur til að hugsa um lífið í samhengi við sinn eigin tíma, því eins og segir í Prédikaranum: „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ „Að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma.“ (Préd. 3.3) Þetta gerir Solvej Balle, hún rífur tímann í sundur og saumar söguna saman aftur.
Steinunn Stefánsdóttir þýðir verkið af miklum metnaði og skilar andblæ sögunnar til okkar á íslensku. Það er margt sérlega flott í þýðingunni:
Samviskubitið og rigningin sem sótti í sig veðrið rak mig allt í einu út úr húsinu, ég þreif töskuna, tók jakkann á handlegginn og hljóp af stað í rigningunni (98).
Tara segir okkur sögu sína, lýsir hugsun sinni, undrun og ótta – á gefandi hátt. Þegar þriðju bók lýkur hefur 18. nóvember upplifað 1892 sinnum og Tara farið með okkur í óvenjulegt ferðalag – sannkallaða óvissuferð. Ævintýrið heldur áfram í næstu bókum.
Ein spurning að lokum: Hvert er form tímans? Lína, hringur, sporbaugur eða spírall? Hvað heldur þú?