Full af lífi! námskeið í vínlausum lífsstíl
Viltu venda kvæði þínu í kross? Hvað með fimm vikna námskeið í vínlausum lífsstíl? Það getur verið verðugt verkefni að endurmóta líf sitt, velja sér gildi, efla kosti sína og dempa ókosti. Breytingin getur orðið áhrifarík þegar gamalli venju er hætt eða byrjað er á nýrri.
Hvað þarf til? Viljastyrk, þekkingu, ákvörðun, frelsi, sjálfsaga? Kannski, það kemur í ljós.
Ákvörðun um að hætta því sem við viljum losna við er góð – en þó virðist fátt auðveldara en að byrja aftur. Þar liggur vandinn. Baráttan tekur á ef „skugginn“ knýr stanslaust á dyrnar og vill láta hleypa sér inn.
Innra með okkur býr andhverfa sem þráir ekkert heitara en að koma í veg fyrir það sem við viljum og snúa aftur til fyrri lífsstíls. Þetta er alþekkt regla sem hefur margoft verið orðuð, eins og: „Það sem ég vil geri ég ekki, hitt sem ég hef óbeit á, það geri ég.“
Bókin Vending – vínlaus lífsstíll kom út í janúar 2024 og ég fylgdi henni eftir með því að standa reglulega fyrir heimspekikaffi og stökum fyrirlestrum. Nú verður boðið upp á námskeið í vínlausum lífsstíl þar sem þátttakendur sleppa vínglasinu í fimm vikur og ákveða svo sjálfir hvert framhaldið verður – fróðari um þennan lífsstíl.
Bókin Vending er skrifuð fyrir þau sem langar til að tileinka sér annan lífsstíl en vantar vendipunkt, verkfæri, kraft, samtal og lífsgildi til að stíga skrefið. Efnið er um sjálfsaga og vellíðan, hvernig höndla beri veikleika og efla styrkleika.
Þau sem velja sér líferni án áfengis, og geta ennþá gert það af eigin rammleik, ættu að undirbúa sig vel til að áformin fjari ekki út. Verkefnið er að temja hugann og líkamann til að langa ekki lengur í áfengi. Losa hugann undan því. Ekki aðeins að breyta hegðun með viljastyrk heldur að verða frjáls.
Verkefnið er að stilla hugann, taka ákvörðun og losna undan því að þurfa sífellt að hugsa málið og velja milli tveggja kosta, að drekka í kvöld eða ekki.
Að vera frjáls frá því að velja og vera bara vínlaus.
Þetta er spennandi og þroskandi verkefni þar sem einstaklingurinn tekur þátt í að þróa lausnina fyrir sjálfan sig. Þetta er tækifæri til að sækjast eftir því sem við viljum og forðast það sem við viljum ekki.
Að breyta sjálfum sér felst í frelsun frá því sem truflar okkur og krafti til að vinna verkið sem gjöfin býður upp á. Við þurfum skýran huga, skapandi hjarta og hraustan heila.
Leiðbeinendur; Margrét Leifsdóttir og Gunnar Hersveinn. Ljósmynd/Ásdís Guðmundsdóttir.
Námskeiðið hefst 22. október 2025 í rúmgóðum og fallegum sal sem nefnist Von og er í Efstaleiti 7, kl. 20 á miðvikudagskvöldum. Leiðbeinendur eru Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi. Námskeiðið er samstarfsverkefni leiðbeinenda og SÁÁ.
Fyrir hver? Fyrir þau sem hafa áhuga á að kynnast vínlausum lífsstíl á uppbyggjandi hátt, vilja prófa að sleppa áfengi í nokkrar vikur og breyta neyslumynstri sínu, vilja fjölga gleðistundum, telja sig drekka áfengi aðeins of oft eða aðeins of mikið en geta ennþá hætt að drekka af eigin rammleik.
Efnið fjallar um sjálfsaga og vellíðan, hvernig höndla beri veikleika og efla styrkleika. Þátttakendur á þessu námskeiði fá að kynnast góðum aðferðum við að breyta um lífsstíl.
Á námskeiðinu er lyklum miðlað til að læsa dyrum og opna aðrar til betri vegar. Það er gott að hætta því sem truflar og byrja á því sem veitir kraft. Að lifa án áfengis er betri gjöf en oft er talið og líkur á jákvæðum samskiptum aukast til muna. Þetta er lærdómsríkt ferli sem ber árangur - en án sjálfsaga og taumhalds verður ekkert frelsi.