Dýrkun er ekki  dygð

Það er ekki gott að dýrka. Það er að vanmeta sjálfan sig og ofmeta aðra manneskju. Við dáumst að verkum annarra, afrekum þeirra en við dýrkum ekki persónur eða tilbiðjum. Dýrkun er að tilbiðja. Dýrkun getur orðið þráhyggja og birst í því að vegsama, göfga eða gera einhvern göfugan eins og hann sé eitthvað betri en aðrir og hafi burði til að gera eitthvað sem öðrum er um megn.

Dýrkun er tilhneiging sem leiðir ekki til sjálfsþekkingar, heldur hvert á móti. Hún ber hugann í burtu frá verðugum viðfangsefnum.

Að dýrka er að vanrækja garðinn því hún rýrir persónulegt gildi og stýrir athyglinni fram hjá eigin ábyrgð og verkefnum.

Við lærum um okkur sjálf með því að efla nokkrar dygðir og hemja ókosti.  Að dýrka aðra er flótti, tilraun til að verða eitthvað sem við erum ekki.

Það er gott að bera virðingu fyrir öðrum, virða þær sem manneskjur og viðleitni þeirra til að lifa. Við þurfum þó ekki að virða allt sem fólk gerir eða segir, það er betra að efast og spyrja spurninga.

Það er gott að vera auðmjúk andspænis lífinu og læra að temja hrokann. Ekki ofmetnast, ekki vera of auðmjúk, heldur finna jafnvægið.

Dýrkun snýst ekki um að efla eigin sálargáfur heldur að fylgja siðakerfi annarra.

Það er ekki hollt að leyfa sjálfum sér að hrífast af leiðtogum á almannasviðinu.

Sínum er fjandinn verstur

Svokallaðir leiðtogar, sem njóta fylgis fólks sem vanmetur sjálft sig, falla gjarnan í þá gryfju að dýrka sjálfan sig og þá er voðinn vís.

Sjálfsdýrkun; leiðtogi sem baðar sig í dýrkun aðdáenda, áhangenda, kjósenda, fer að trúa því að hann sé útvalinn og leyfist meira en aðrir, meira en aðrir leiðtogar á undan.

Hann hættir að gera greinarmun á réttu og röngu, sönnu og ósönnu, og finnst eðlilegt og sjálfsagt að skoðun hans, þarfir, óskir og duttlungar ráði för í samfélaginu. Hann geti jafnvel ráðið og rekið, breytt lögum og reglum og efnt til stríðsreksturs.

Next
Next

Full af lífi! námskeið í vínlausum lífsstíl