Viltu sneiða hjá áfengi í 5 vikur?

Það getur verið verðugt verkefni að endurmóta líf sitt, velja sér gildi, efla kosti sína og dempa ókosti. Breytingin getur orðið áhrifarík þegar gamalli venju er hætt eða byrjað er á nýrri. Vínlaus lífsstíll er eftirsóknarverður en hvernig er það gert? Hvað þarf til? Viljastyrk, þekkingu, ákvörðun, frelsi, sjálfsaga? Kannski.

Ákvörðun um að hætta því sem við viljum losna við er góð – en þó virðist fátt auðveldara en að byrja aftur. Þar liggur vandinn.

Það er margt sem viðheldur víndrykkju þá þeim sem vilja hætta að drekka. Áfengi er tengt við ótal marga viðburði á fjölmörgum sviðum í samfélaginu, bæði í sorg og gleði. Upptalningin myndi æra óstöðugan. Einn vandinn er að einstaklingar sem vilja hætta tilheyra oft fjölskyldum eða vinahópum þar sem áfengi er sterkur þáttur í samverunni. Samdrykkjan er ósjálfráð og hættir ekki fyrr en allir eru orðnir töluvert ölvaðir. Hvernig má brjóta upp þessa venju?

Áfengi er ávanabindandi og hefur slæm áhrif á helstu líffæri, hjarta og heila, hugsun og skerpu. Það kemur að því að þau sem drekka of oft og of mikið finna til löngunar til að hætta þessu. Þau finna hvernig drykkjan bitnar á líkama og sál, skapi og hreyfingu og jafnvel sínum nánustu. Þau óttast hins vegar að missa af fjörinu og félagsskapnum og að verða útundan. Hvað er til ráða?

Námskeið í vínlausum lífsstíl

Það er kjörið að bjóða upp á námskeið fyrir þau sem langar til að tileinka sér annan lífsstíl en vantar vendipunkt, verkfæri, kraft, samtal og lífs­gildi til að stíga skrefið.

Við höfum nú þróað námskeið í vínlausum lífsstíl þar sem þátttakendur sleppa vínglasinu í fimm vikur og ákveða svo sjálfir hvert framhaldið verður – fróðari um þennan lífsstíl. Stuðst er við bók Gunnars Hersveins sem heitir Vending – vínlaus lífsstíll. Bókin hefur hjálpað mörgum til að tileinka sér þennan lífsstíl.

Þau sem hafa áhuga á að rannsaka  líferni án áfengis, og geta ennþá gert það af eigin rammleik, eiga erindi á námskeiðið. Verkefnið er að temja hugann og líkamann til að langa ekki lengur í áfengi. Losa hugann undan því. Ekki aðeins að breyta hegðun með viljastyrk heldur að verða frjáls.

Þetta er spennandi og þroskandi verkefni þar sem einstaklingurinn tekur þátt í að þróa lausnina fyrir sjálfan sig. Þetta er tækifæri til að sækjast eftir því sem við viljum og forðast það sem við viljum ekki.

Að breyta sjálfum sér felst í frelsun frá því sem truflar okkur og krafti til að vinna verkið sem gjöfin býður upp á. Við þurfum skýran huga, skapandi hjarta og hraustan heila.

Námskeiðið hefst 22. október 2025 í rúmgóðum og fallegum sal sem nefnist Von og er í Efstaleiti 7, kl. 20 á miðvikudagskvöldum. Leiðbeinendur eru Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi. Námskeiðið er samstarfsverkefni leiðbeinenda og SÁÁ. Hægt er að skrá sig á heimasíðu SÁÁ.

Námskeiðið er fyrir þau sem hafa áhuga á að kynnast vínlausum lífsstíl á uppbyggjandi hátt, vilja prófa að sleppa áfengi í nokkrar vikur og breyta neyslumynstri sínu, vilja fjölga gleðistundum, telja sig drekka áfengi aðeins of oft eða aðeins of mikið en geta ennþá hætt að drekka af eigin rammleik.

Upplýsingar um Full af lífi! námskeið í vínlausum lífsstíl

Höfundar eru Gunnar Hersveinn rithöfundur og Margrét Leifsdóttir heilsumarkþjálfi

Next
Next

Dýrkun er ekki  dygð