Glósur um áhrif áfengis
Full af lífi – námskeið í vínlausum lífsstíl
22. október 2005. Glósur. © Lára G. Sigurðardóttir 2025
Lára G. Sigurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísindum flutti erindi á námskeiðinu Full af lífi! – vínlaus lífsstíll. Hér eru glósur eða punktar.
Það er löng og stormasöm ástarsaga milli manna og áfengis. Við byrjuðum að brugga áður en við fundum upp stafrófið. Áfengi hefur því fylgt manninum í þúsundir ára. Nokkrar staðreyndir:
Eina viðurkennda eða löglega vímuefnið.
Á heimsvísu eru 22% karla með áfengissýki og 10% kvenna.
Langflestir eða um 80% af fólki með fíknisjúkdóm hefur áfengisvanda.
1 af hverjum 10 drekka helming alls áfengis.
Talið áfengi hafi átt þátt í falli Rómarvalds sem birtist í verri stjórnun. Í gömlum ritum er talað um skaðleg áhrif þess á heilsu, ofbeldi og glæpi. Blý í bruggtunnunum einnig talið hafa haft skaðleg áhrif.
Einn drykkur jafngildir 150 ml léttvín, 350 ml bjór (lítill), 30 ml skot/sterkt (eitt)
Hvað er áfengi?
Myndast við gerjun (sykurs, ávexta) upp að vissu marki, þar eð að segja um 15%, þegar áfengi drepur gerlana.
Ethýl alkóhól eða etanól vímuefni í öllum áfengum drykkjum.
Etanól er fitu- og vatnsleysanlegt, sem kemst það inn í allar frumur líkamans - til samanburðar hefur koffín og nikótín áhrif gegnum viðtaka. Upptekið í maga og nærhluta smágirnis. Notað sem leysi efni og sótthreinsiefni, brýtur niður prótein og leysir upp fitu. Hreinsar líklega flest nema sálina.
Örstuttur efnafræðitími… Alkóhól brotnar niður í asetaldehýð (alkóhól dehýdrógenasi) ->ediksýra (aldehýð dehýdrógenasi) -> H2O + CO2. Asetaldehýð safnast auðveldlega upp því það erflöskuháls í niðurbroti þess. Asíumenn þola oft ekki áfengi því þeir eru með skort á ensíminualkóhól dehýdrógenasa, innbyggt antabus. Asetaldehýð eitrað og krabbameinsvaldandi.
Margar gerðir af alkóhólum, t.d. Methanól (tréspíri) með formaldehýð (í stað acetaldehýð) semniðurbrotsefni, sem brotnar niður í maurasýru (e. formic acid) sem getur valdið blindu. Bútanólannað alkóhól (ísvari) og svo etanól (áfengi) sem er eina löglega vímuefnið.
Áfengi er sljóvgandi, dregur úr taugaleiðni. Eituráhrif á líkamann, þar á meðal taugaeitur. Ef áfengi væri fundið upp í dag þá myndi það aldrei fá samþykki Matvælastofnunar eða Lyfjastofnunar. En þar sem við byrjuðum að nota það fyrir siðmenningu er það orðin hefð - svona eins og hangikjöt,nema með meiri eftirköstum.
LÍKAMLEGAR AFLEIÐINGAR ÁFENGISNEYSLU Bráðar afleiðingar áfengisneyslu
Deyfandi/Sljóvgandi áhrif, hægir á taugaleiðni. Eykur GABA taugaboðefni og dregur úr steitu/kvíða - róar kvíðastöðina djúpt í heilanum, sem dregur úr kvíða. Eykur einnig öll þau hormón sem við sækjumst eftir, serótónín, dópamín og endorfín - hið fullkomna sjálfsmeðal, ef það væri ekki fyrir eftirköstin.
Áhrifin stigmagnast samhliða auknum styrkleika í blóði:
0,05% Róandi, góðglaður, málgefinn, aukið sjálfstraust. Og finnast við fyndin.
0,05-0,1% Slaga, sein viðbrögð.
0,1-0,2% Þvoglumælgi, jafnvægistruflanir, minnkað snertiskyn og tímaskyn, minningar skrást ekki (blackout).
0,2-0,5% áfengisdauði og dýpri svefn
>0,5% öndun lamast, ásvelging, bþ- og bs-fall.
Eitrunareinkenni ef karlar drekka 5 drykki á 2 tímum og konur 4 drykki getur það birst í rugli, uppköstum, flogi, öndunarbælingu, bláleitri/fölri húð, kulda, meðvitundarskerðingu, köfnun/öndunarstoppi. Amy Winehouse lést árið 2011 - 27 ára gömul úr áfengiseitrun.
Fráhvörf, adrenvirk viðbrögð, hækkaður blóðþrýstingur, púls, sviti, skjálfti, krampar, ofskynjanir, tituróráð (delirium tremens). Niðurbrotsefni erta heilahimnur og valda höfuðverk. Daginn eftir minnkar GABA meira en upphaflega og Glútamat eykst, sem eykur kvíða enn meira. Hin gleðiefnin raskast líka. Flog geta komið fram eftir mikla drykkju. John Bonham trommari Led Zeppelin lést 32 ára úr flogi, kemur fyrir hjá um 30% ómeðhöndlaðra fráhvarfa.
Það fer eftir magni hversu lengi áfengi er að fara úr líkamanum, sjá BAC https://alcohol.org/bac-calculator/
Langvinnar afleiðingar áfengisneyslu
Áfengi er orsök 60 sjúkdóma og á þátt í að mynda 200 sjúkdóma. - og ólíkt flestum sjúkdómum sem eru læknaðir með lyfjum, felst aðalmeðferðin í því að hætta að nota „lyfið“!
HEILI: eykur kvíða til lengdar sambanber ójafnvægi GABA og Glútamats. Margir eru settir á kvíðalyf, spurning hversu duglegir læknar og sálfræðingar eru að spyrja út í áfengisneyslu? Vissulega getur kvíði komið á undan, en versnar alltaf með áfengi.
Blóðflæði minnkar til ákveðinna svæða í heilanum, sérstaklega framheilanum (réttnefni er ennisblað) - þessi sem segir „ekki fá þér meira” eða „ekki gera þetta” fer fyrst í frí (í framheilanum). Sýnt hefur verið fram á að til lengri tíma getur framheilinn skroppið saman, en það er sá hluti sem á að bremsa okkur af í að gera einhverja vitleysu, sjá um að leysa flókin vandamál, skipuleggja framtíðina og taka vitrænar ákvarðanir. Minni virkni í framheila dregur líka úr dómgreind, viðbragðshæfni, sjón, getur valdið minnisleysi og þunglyndi. Auk þess hægir áfengi á nýmyndun taugafruma í dreka (e. hippocampus) djúpt í heilanum, - sem hjálpar þér að kalla fram minningar eða að læra eitthvað nýtt. Útskýrir af hverju fólk sem drekkur mikið endar alltaf að segja sömu sögurnar aftur og aftur. Dreki er líka mikilvægur til að dempa streitu og láta þér líða vel. Áfengi dregur úr virkni dreka sem er svolítið eins og senda heilann í „orkusparnaðarstillingu” eða „low power mode” sem hefur neikvæð áhrif á minni og andlega líðan. Dreki er til dæmis minni hjá fólki með Alzheimer og þunglyndi. Getur þannig leitt m.a. til minnisskerðingar og þunglyndis. Það kemur því ekki á óvart þegar fólk vaknar með kvíða og depurð næsta dag. Og er lengur að koma heilanum í gang – ef svo má segja.
Svefn: Þar sem etanól dregur úr taugaleiðni veitir það slökun og getur hjálpað fólki að sofna, en svefn verður léttari og þú vaknar oftar upp á næturnar. Dregur þannig úr gæðum svefns og minnkar draumsvefn sem við þurfum til að festa minningar í sessi og fyrir tilfinningaúrvinnslu. Minnkar einnig djúpsvefn sem við þurfum til að hvílast vel, framleiða vaxtarhormón og endurnýja líkamann. Áfengi hindrar einnig framleiðslu melatóníns, sem er ekki eingöngu svefnhormón sem hjálpar okkur að sofna heldur öflugt andoxunarefni, sem ver okkur gegn sýkingum, frumuskaða ofl. Áfengi ýtir undir kæfisvefn því það hægir á taugaleiðni sem slakar á vöðvum í hálsi, sem þrengir að öndunarvegi, sem ýtir undir hrotur og öndunarpásur.
Vítamínskortur getur leitt til Beri Beri: 1. Wet: hjarta- og æðakerfi, hjartabilun; 2. Dry: Taugaskaði, vöðvaslappleiki, lömun. Wernicke-Korsakoff heilakvilli/ofskynjanir, skammtímaminnisskerðing, rugl, tvísýni, vövaspasmi.
HJARTA: Háþrýstingur er þekkt afleiðing áfengisdrykkju og algengasta orsök illvígs háþrýstings (>180 efri mörk/>110 neðri mörk). Talið erta beint æðaveggi og draga úr losun köfnunarefnisoxíðs (e. Nitric oxide, NO) sem slakar á æðaveggjum, sbr. sprengitöflur/nígróglyserín víkka æðavegg. Athuga að mikil áfengisdrykkja (>3 drykkir á einu bretti) lækkar blóðþrýsting í allt að 12 klst eftir drykkju en blóðþrýstingur eykst svo >13 klst frá drykkju. Gáttatif þar sem hjartað slær óreglulega, hjartað alsett taugaendum og áfengi er þekkt taugaeitur, áfengi er algengasti trigger gáttatifs. Jafnvel eitt glas af léttvíni, bjór eða sterku á dag eykur líkur um 16% í samanburði við að drekka ekkert. Allt að 62% fólks sem leitar með gáttatif á bráðamóttöku er með áfengisdrykkju sem orsök. Gáttatif er algeng orsök heilablóðfalls þar sem blóðtappi myndast í hjartanu og skýst upp í heila. Stækkað hjarta (e. cardiomyopathia). Þá teygist á hluta hjartans sem víkkar þannig að það dregst ekki eðlilega saman sem er nauðsynlegt til að dæla súrefnisríku blóði um líkamann. Hjartanu má líkja við sterkt teygjuband, sem þenst og dregst vel saman. Þegar hjartað stækkar verður teygjan slöpp og dregst ekki nógu vel saman. Athuga að allt getur gengið til baka ef drykkju hætt nógu snemma.
VÉLINDA: Áfengi slakar á vöðvanum við efra magaop og eykur því líkur á bakflæði. Notun magalyfja/PPI-hamlar algeng hjá skjólstæðingum Vogs. Algeng ástæða vélindakrabbameins, þó fæstir sem drekki fái vélindakrabbamein þá aukast líkur tífalt ef drukkið er >3 drykkir/dag í samanburði við < 1d/d.
MAGI: Ertir/skemmir slímhúð magans, eykur líkur á magabólgu og -sári. Skerðir nýtingu næringarefna, sérstaklega B12 og próteina.
BRIS: Eykur líkur á brisbólgu (um helmingur v/áfengis, hinn helmingur v/gallsteina) og sykursýki. Insúlín framleitt í brisi en áfengi dregur úr insúlín-næmi og eykur líkur á sykursýki týpu 2. Blóðsykursveiflur verða einnig meiri. Meltingarensím framleidd í brisi, dregur úr seytun þeirra sem eykur líkur á næringarskorti (auk þess sem maður nærist illa í neyslu), sérstaklega. Þíamín, fólat, Vít A, magnesíum, kalsíum, sínk. Magnesíum skortur getur aukið enn meira bakflæði. Getur leitt til vannæringar. Næringarskortur ásamt skertri taugaleiðni ýtir undir vöðvarýrnun.
LIFUR: Stigmagnandi Fitulifur -> Lifrarbólga -> Skorpulifur. Fitulifur getur sést eftir 5-6 bjóra á dag . Lifrin stækkar og verður fitusprengd, fita safnast í lifrarfrumurnar. Oft engin einkenni og greinist oft fyrir tilviljun þegar verið er að rannsaka annað. Stundum lúmsk einkenni eins og þreyta eða slappleiki (vegna bólguástands í líkamanum). Getur leitt til þess að frumurnar bresta og lifrarensím leka úr frumunum, sem getur sést í blóðprufu. Þegar ensímin leka úr frumunum veldur það ertingu og bólgu, sem með tímunum veldur bólgu í lifrinni, þ.e. áfengistengd lifrarbólga. Þegar lifrin er lengi bólgin byrja ör að myndast, sem getur leitt til skorpulifur, en þá er lifrin alsett öri (minnkuð og samanherpt) og þá orðin óstarfhæf. Lífshættulegt og gengur sjaldnast til baka. Skorpulifur þekktist ekki hér á landi fyrir tíma bjórsins, fyrir 1989. Billie Holiday lést 44 ára úr skorpulifur og Richard Burton leikari 58 ára vegna heilablæðingar í tengslum við skorpulifur.
ÓNÆMISKERFI: Áfengi bælir ónæmiskerfið, á Berklaspítulum fóru áfengissjúklingar verr úr berklum en þeir sem drukku ekki. Fækkar hvítum blóðkornum og eykur líkur á sýkingum. Það verður aukin bólga í líkamanum en ónæmiskerfið ómarkvissara, svolítið eins og að keyra um nýrri stórborg án google maps.
BEIN/STOÐKERFI: Beinþynning - áfengi hraðar niðurbroti beina og dregur úr upptöku og nýtingu næringarefna sem við þurfum til að byggja upp beinin sem eru í stöðugri endurnýjun. Veldur einnig vöðvarýrnun.
BLÓÐ: Blóðflögum fjölgar, aukin hætta á blóðtappa, t.d. í fæti eða veldur heilablóðfalli. Truflar einnig storkuþætti blóðs þannig að blæðingarhneigð er aukin. T.d. alltaf mælt með að neyta ekki áfengis um 10 daga fyrir aðgerð.
GETULEYSI hjá körlum og konum.
SKAÐAR ERFÐAEFNI, eykur líkur á krabbameini í að minnsta kosti 7 líffærum Um 6-40-falt. Engin örugg mörk t.d. fyrir brjóstakrabbamein hjá konum og áhætta skammtaháð.
FÓSTURSKAÐI. Áfengisheilkenni fyrst lýst um 1970, þrátt fyrir að drykkja hafi fylgt mönnum í árþúsundir - líklega margt annað sem á eftir að koma í ljós. Fyrirburafæðingar, hegðunar- og lærdómsskerðing.
ÓTÍMABÆR ANDLÁT. Áfengi veldur 7,2% allra ótímabærra andláta <69 ára, en 13,5% 20-39 ára. Þannig nær tvöfalt illvígara hjá ungu fólki.
SLYS OG ÁVERKAR: Allt að 50% komur á Bráðamóttökuna, sérstaklega um helgar og í tengslum við drykkjuhátíðir. Þekkt að þegar kjötkveðjuhátíðin í Rio de Janeiro í Brazilíu er haldin þá er mikil aukning í ofbeldi, götubardögum, áverkum, bílslysum og slysum almennt tengt ofneyslu áfengis. 50% banaslysa í umferðinni vegna ölvunar og ⅓ banaslysa almennt.
KAFLI 2
ÞETTA GERIST Í LÍKAMANUM Á FJÓRUM VIKUM ÁN ÁFENGIS
Þegar þú gefur líkamanum hlé frá áfengi byrjar hann næstum því um leið að gera við sig. Á fjórum vikum verður þú eins og ný manneskja. Húðin er til dæmis 4-8 vikur að endurnýja sig.
Í fyrstu vikunni ertu eins og sími sem er að endurhlaðast, í annarri viku byrjar skjárinn að lýsa, þeirri þriðju er síminn farinn að virka og þeirri fjórðu kominn með frábært net við umheiminn.
Fyrsta vikan helgast af fráhvarfseinkennum og endurhleðslu. Örvandi áhrif fráhvarfanna dvína smátt og smátt, meiri ró færist yfir líkama og huga. Hafir þú drukkið mikið getur þú búist við skjálfta, kvíða, svita og vægu þunglyndi, sem venjulega gengur yfir á þremur til fimm dögum. Eftir mikla drykkju er þó ráðlagt að stoppa áfengisneyslu í samráði við lækni.
Blóðsykur kemst í jafnvægi, en áfengi truflar efnaskipti glúkósa. Líkaminn byrjar því að fá eðlilegt insúlín-næmi sem er nauðsynlegt fyrir góð efnaskipti og brenna mittismálinu, sem við mörg eltumst við.
Hafi lifrarensím verið hækkandi þá byrja þau núna að falla og lifrin fer að gera við skemmdirnar sem áfengið olli.
Þar sem áfengi er vatnslosandi byrja frumurnar þínar nú að halda betur vatni, húðin og augu fá meiri ljóma.
Svefn batnar rólega, en eðlilegt er að hafa fjöruga drauma og lélegan svefn til að byrja með.
Þér byrjar að líða betur því GABA og glútamat kerfið ná aftur jafnvægi, sem hefur róandi áhrif. Dópamínframleiðslan nær einnig jafnvægi.
Vika tvö einkennist af orku og skýrleika. Djúp- og draumsvefn batnar, þú kemst í betra skap, færð meiri orku og einbeitingu. Þar sem serótónín og dópamín kemst í jafnvægi ætti að hægjast á skapgerðasveiflum, ef einhverjar voru.
Húðin verður meira ljómandi því meira blóðflæði og raki þýðir minna af baugum og þrota.
Meltingin batnar og þarmaflóran nær aftur jafnvægi.
Núna getur sterk löngun í áfengi skotið upp kollinum án fyrirvara, til dæmis ef þú ert undir álagi og hafðir áður fengið þér sopa í tengslum streitu. Hér er meðvitund lykillinn - að hugsa um hvaða hugsanir hrærast um í huganum. Hugsa til dæmis hve mikill léttir sé að vera laus við heilaþokuna og fá aftur minnið og einbeitinguna.
Í viku þrjú öðlastu meiri líkamlegan styrk. Blóðþrýstingur og hjartsláttur lækkar og álag á hjartað minnkar.
Fitusöfnun í lifur minnkar, um allt að 20% samkvæmt rannsóknum.
Efnaskipti komast í jafnvægi, kviðurinn verður minna þaninn og meltingarvegurinn tekur betur upp næringarefni.
Kvíði ætti að hafa minnkað verulega og þol gagnvart streitu aukist, því þitt náttúrulega endorfín eykst. Umbunarkerfið sem inniheldur dópamín byrjar að finna gleði og gaman í venjulegum athöfnum, t.d. með því að hlusta á tónlist, hreyfa þig, dansa o.s.frv.
Á fjórðu viku máttu búast við enn meiri ljóma og heilbrigði.
Lifrin hefur gróið verulega.
Ónæmiskerfið er sterkara.
Húðin fær fallegri áferð.
Melatónín framleiðsla verður eðlileg og þú vankar ferskari.
Núna gætir þú tekið eftir mjórra mittismáli því áfengi er bæði hitaeiningaríkt og hefur óhagstæð áhrif á efnaskipti, líkt og áður sagði.
Þú ættir núna að finna meiri ánægju af lífinu, hafa skýrari sýn á lífið, upplifa meira sjálfstraust og almennt vera í betri skapi. Enda byrjar gráa efnið í framheilanum að aukast innan mánaðar eftir að drykkju er hætt, sem eykur hæfni til að skipuleggja, einbeitingar og að hafa hömlur á hvötum.
Svo er ykkar að komast að því hvað gerist í fimmtu viku :)
Lífið er bara upp á við!
Glósur. © Lára G. Sigurðardóttir 2025