Friðvædd jörð

  • 80 ár eru liðin frá kjarnorkuárásunum á Japan og að 40 ár eru frá fyrstu kertafleytingunni á Reykjavíkurtjörn. Ég hvet ykkur til að minnnast þessa. Hér er pistill í tilefni dagsins og svo er einnig málþing í dag, 6. ágúst og viðburður í kvöld við Tjörnina.

Herlist, hertækni, hernaðarbandalag, herfræði, heróp, heróín ... Stríð er vanabindandi aðferð líkt og heróín er vanabindandi efni. Menn, ríki, þjóðir hervæðast, kveða upp heróp og senda herskip, herþotur og herdróna af stað til að varpa sprengjum ...

Hertæknin er svo þróuð að umfangsmikil hernaðaráætlun hefst á örskotsstundu. Hvarvetna um heiminn eru herbækistöðvar og umhverfis jörðina sveima athugul augu gervitungla – engu er til sparað og alhliða her-drónavarnarkerfi drifin upp.

Svo háþróuð er hervæðing heimsins að þegar herkallið kemur bregðast leiðtogar umhugsunarlaust við og sameinast í hernaðarbandalagi gegn andstæðingum sínum. Svo öflugt er þetta kerfi að efasemdaraddir heyrast ekki.

Hertæknin og allt sem henni fylgir er háþróuð tæknivædd birtingarmynd rótgróins valdakerfis karla. Ef til vill má segja að hún sé skrautfjöður úreltrar karlmennsku, það sem valdakerfið teflir fram á sýningum sem sitt merkasta sköpunarverk.

Gallinn er að hertæknin hefur aðeins eitt ráð: vopnuð vörn og vopnuð sókn, ógn og innrás. Tugir hópa sérfræðinga hafa til að mynda árum saman skipulagt innrás í Íran – svo dæmi sé tekið. Þeir hafa ekkert annað starf en að skipuleggja möguleg, væntanleg, komandi stríð – tíminn á milli stríða er ekki friður í þeirra augum heldur vopnahlé. Á þessu ári gerði Ísrael innrás í Íran með nýjustu tæknivopnum sínum – eftir að hafa lagt Gasa í rúst og framið þjóðarmorð í Palestínu.

Karllæg hugsun og hegðun einokar herfræðina og nú hefur valdamesti karlinn í heiminum fengið hrós frá framkvæmdastjóra NATÓ fyrir að fá aðildarríki Atlantshafsbandalagsins til að samþykkja áætlun um að verja 5% af þjóðarframleiðslu í varnar- og öryggismál. Hann fór í sérstaka heimsókn í Hvíta húsið til að þakka fyrir.

  • Friðarmenning

Til er önnur aðferð, önnur tækni sem sjaldan fær fé til þróunarverkefna því hún er neðst í virðingarröðinni. Það er friðartækni. Samt er knýjandi þörf á því að þróa þessa tækni og að ungt fólk nemi friðarlist. Þá yrði hægt að prófa aðrar aðferðir en hertækni til að bæta stríðshrjáð samfélög. Friður er mennska sem flestallir óbreyttir borgarar vilja rækta með sér.

Börn, konur og ungt fólk eru helstu fórnarlömbin í stríðum – en þegar svokallað „friðarferli“ hefst í þeirra löndum er þeim ýtt til hliðar og þau fá ekki að taka þátt í ákvörðunum um uppbyggingu. Þau vilja nota reynsluna úr stríðunum til að vinna bug á afleiðingum ófriðarins – en ekki til að hefna sín eins og innbyggt er í hertæknina.

Ég óska þess að friðartæknin leysi hertæknina af hólmi og verði svo þróuð að umfangsmikil friðaráætlun geti hafist á örskotsstundu. Hvarvetna um heiminn verða friðarbækistöðvar og umhverfis jörðina sveima athugul augu friðartungla – og engu verður til sparað.

Svo háþróuð verður friðvæðing heimsins að þegar friðarkallið kemur bregðast leiðtogar umhugsunarlaust við og sameinast í friðarbandalagi gegn ofríkinu. Svo öflugt verður þetta friðarkerfi að allar efasemdaraddir kafna.

Friðartæknin og allt sem henni fylgir verður háþróuð tæknivædd birtingarmynd rótgróinnar mannúðar. Hún verður skrautfjöður mannlífsins – sem valdakerfið teflir fram á sýningum sem sitt merkasta sköpunarverk. Sérfræðingar hafa ekkert annað starf en að skipuleggja mögulegan, væntanlegan, komandi frið. Friðartæknin verður efst í virðingarröðinni.

Friðarlist, friðartækni, friðarbandalag, friðarfræði, friðaróp ... Friður verður vanabindandi aðferð. Menn, ríki, þjóðir friðvæðast, kveða upp friðaróp og senda friðarskip og friðardúfur af stað með blóm í goggi.

Previous
Previous

Er öllu afmörkuð stund? III

Next
Next

Ár friðar og trausts í samskiptum ríkja