Er öllu afmörkuð stund?

Gunnar Hersveinn/ lifsgildin@gmail.com

Skrifað og hugsað um bókina Rúmmálsreikningur I eftir Solvej Balle í þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur, útgefandi Benedikt bókaútgáfa, 2023. Þetta er magnað verk sem knúði mig til að hugsa um tímahugtakið, endurminninguna, endurtekninguna og undantekninguna.

Nú hefur tíminn numið staðar, sagði klukkan, en þrátt fyrir það hætti hún ekki að tifa. Gallinn var að sami dagur byrjaði alltaf upp á nýtt, hjá öllum nema Töru Selter. Söguhetjan varð útlagi tímans í bókinni eftir danska rithöfundinn Solvej Balle.

#265. dagur ársins 2023

Eitt andartak var Tara viss um að það væri annar dagur - en svo var ekki, þetta var sami dagurinn og í gær og daginn þar á undan. Lífið líður ekki áfram hjá öðrum, aðeins hjá henni. Enginn veit að tíminn er fastur í sama farinu, enginn nema hún.

Ef Tara segir öðrum frá því hvernig málum er háttað, þá trúa þeir henni stundum en oftast ekki, en það skiptir ekki máli, því allir eru búnir að gleyma hvað hún sagði þegar þeir vakna daginn eftir á sama degi og í dag, í gær.

Karlinn hennar Töru heitir Thomas Selter. Höfundurinn heitir Solvej Balle. Þýðandinn Steinunn Stefánsdóttir. Lesandinn er Gunnar Hersveinn og situr í stofunni gegnt arninum og skrifar eftir að hafa lesið Rúmmálsreikningur I sem er fyrsta bók af sjö og enn sú eina sem hefur verið þýdd á íslensku. Balle fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir fyrstu þrjú bindin. Ég ætla að hugleiða hér fyrsta bindið og tel dagana sem lesandi á sama hátt og höfundurinn telur daga sögupersónu sinnar. #265 …

#266. dagur ársins 2023

Almanak fyrir Ísland 2023, 187. árg. gefur mér upp laugardaginn 23. september, 23. viku sumars, haustjafndægur, 266. dagur ársins. Hvernig ætti ég að haga deginum og hvað ef ég festist á þessum degi? Ég hlusta á tónlist Melody Gardot & Philippe Powell, á fóninum er Entre Eux Deux, þau flytja lagið Ode to Every Man. Ég set lagið tvisvar á til að ná textanum: „I am alone in my loneliness/ Not forgotten nor cast out“. Textinn kallast á við líðan Töru í bókinni.

Mín eigin vitund um tímann hefur breyst með árunum. Tíminn líður ekki eftir beinni línu frá einum punkti til annars, eins og oft er sagt. Hann líður heldur ekki í hring, form tímans er spírall í mínum huga. Tíminn er vissulega ekki peningar og hann læknar ekki öll sár. Ég laga mig að honum. Oft virðist sem sami dagurinn rísi aftur og aftur, ráðsett fólk sem vinnur 9-5, fer í vinnu, í búðir, hlustar á sömu útvarpsrásina, horfir á sjónvarpsfréttir, fer í sund osfrv., viku eftir viku, sumar, haust, vetur og vor, ár eftir ár, hring eftir hring í reglubundnu lífi. Miðvikudagur eftir Stein Steinar:

Miðvikudagur – og lífið gengur sinn gang
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.

Tara á hinn bóginn þarf að móta sér nýja afstöðu til tímans. Hún hefur dottið úr takti við aðra og lífið í heild. Greinilegt er að Solvej Balle hefur úthugsað og skipulagt heiminn sem Tara býr í og rakið sig eftir götunum og skoðað híbýlin vel. Það er líkt og Balle búi yfir reynslu af þessum skáldaða heimi. Hún rannsakar tímaveruna, hvað gerist í tímanum ef við nemum staðar á þann veg að sami dagurinn komi alltaf aftur, en þó með örfínum tilbrigðum. Lífið er fljótandi og Tara getur haft áhrif á aðra en það þurrkast út þegar dagurinn kemur aftur.

Aðeins Tara heldur áfram að lifa, aðeins hún veit um breytinguna, hún er sú eina sem eldist, eina sem glímir við tímann sem hrökk úr takti við hana. Hvernig er að upplifa sama daginn 365 daga í röð? „Á hverju kvöldi þegar ég fer að sofa í gestarúminu í herberginu er átjándi nóvember og á hverjum degi þegar ég vakna er 18. nóvember. Ég á ekki lengur von á að það sé kominn nítjándi nóvember þegar ég vakna og man ekki lengur eftir sautjánda nóvember eins og hann hafi verið í gær.“ (7)

Hún verður óneitanlega einmana og leitar að leið inn í samfélagið. „Ég leita að breytingu sem ég get gripið í, mismun, umskiptum. Það er kvöld. Ég sit á herbergi 16. Kannski vakna ég við mun. Ef ég sofna.“ (167). Hún fylgist með, heyrir, hlustar, þekkir hljóðin. Hún yrði þakklát ef næsti dagur rynni upp sem ósköp venjulegur dagur.

Við höfum vanist veröldinni, tekist á við hana daglega, mætt mótlæti, fengið meðbyr, hrifist, fyllst óbeit. Tara getur ekki lengur fótað sig í veröldinni, tekið ákvörðun um hvert skal stefna og búist við að svo verði, því hún hefur glatað sambandinu við tímann. Tara er hrædd en tekst á við tímann af hugrekki. Hún telur dagana, læðist og fylgist vandlega með.

#267. dagur ársins 2023

Dagarnir í lífi mínu bætast við einn af öðrum, í dag er sunnudagurinn 24. september, 267. dagur ársins og fæðingardagur dóttur minnar. Ég vakna á sama hátt og venjulega, allt eins, næstum því það sama í fréttum, svipað veður og í gær, sama rútína, svipuð verkefni, hver er munurinn? Það er auðvelt að lifa af gömlum vana og hugsunarlaust, jafnvel að taka upp skoðanir annarra.

#272. dagur ársins 2023

Haustmánuður byrjaði í gær og haustvertíð hefst í dag. Fullt tungl. Rúmmálsreikningur I er greinilega athugun og lýsing á hversdagslegum hlutum. „Hann fer í frakkann og tekur bréfin og pakkana upp af gólfinu. Klukkan 15.24 yfirgefur hann húsið. Hann heldur á bréfum og pökkum.“ (10) „Það er bolli við vaskinn og ketillinn á eldavélinni er enn volgur. Ég get rakið spor Thomasar um húsið.“ (11)

Tara getur valið ef hún vill að vera með manni sínum, spjalla við vini og gert grein fyrir stöðu sinni. Hún gerir það stundum, en það verður allt innantómt og gagnslaust daginn eftir, því enginn man neitt daginn eftir nema hún. Tíminn hefur aðskilið hana, slitið sundur bandið sem batt hana við aðra. Dagarnir hvíla á milli þeirra, þau fylgdu henni ekki og/eða hún ekki þeim.

Textinn er líka mjög vel og fallega þýddur af Steinunni Stefánsdóttur. Greina má alls konar orð, hluti og liti sem líða um textann á síðum og í huga lesandans. Textinn flýtur áreynslulaus og styður svo vel upplifun lesanda og áform höfundar.

„Ég heyri það á hljóðunum. Það er sami dagur. Enn einu sinni vakna ég í gestaherberginu og enn einu sinni er Thomas búinn að fara í gegnum morgunverkin sín, það hefur suðað í lögnum, eldavél og ísskápur gefið frá sér sín hljóð.“ (27)

Heilt ár líður og Tara leitar að ummerkjum um að dagurinn sé ekki sá sami. Eftirvæntingin er mikil og hún lýsir því fallega. „Ég fór út í daginn minn. Sama daginn, en hann virtist vinsamlegur. Opinn og fullur tækifæra og mettaður smáatriðum og atburðum og hreyfingum sem gætu breytt um stefnu á hverri stundu.“ (168) Hún skrifar „Ég átti dag sem þurfti að líða og ég ætlaði með honum.“

Hún ætlaði með deginum, halda í hann, elta hann. En hún getur það ekki. Er það ekki hliðstæða við dauðann, að komast ekki áfram með tímanum, vera skilinn eftir, fastur eins og nál sem hjakkar í sama farinu á plötunni á fóninum?

Á einum stað í textanum skoðar Tara íbúð í París sem vinahjón ætla að kaupa, þar má finna vísbendingu um tímann og lífið. „Eigandi íbúðarinnar hafði búið þar allt sitt líf, heilt líf þjappað saman í einni íbúð. Tímahylki.“ (173).

Verkefnið fram undan var að tæma íbúðina. Ef til vill var það sama verkefnið og söguhetjan stendur frammi fyrir gagnvart eigin lífi. Tíminn hafði numið staðar og gleymskan hóf að eyða minningunum. Tæma hugann.

Eins og í íbúðinni var minni hennar og líf hrúga af dóti: „Dagblaðsstaflar, fatabunkar og bókahillur með bókum og tímaritum.“ (172)

„Ég elti þau eftir löngum og krókóttum stíg, milli hrúganna.“ Þannig leitaði Tara að útgönguleið en hún var föst í íbúðinni sem var lokuð með furðuþungri hurð en á henni stóð ólæsilegt og næstum afmáð nafn. Ég tel að þessi lýsing falli vel að stöðu og líðan söguhetjunnar okkar, hennar Töru.

Allt var eins og áður en það var eins og smáatriðum hefði fækkað. „Ég sveif ekki um þjappaðan alheim, ég synti ekki um haf nákvæmra smáatriða og ég vissi ekki hvert ég var að fara.“ (177) Smáatriðin seytluðu út úr minni hennar.

Sennilega má líkja dögum Töru við martröð eða fangelsi. Hvernig er hægt að opna dyr sem vilja ekki opnast? Á að sparka í þær? Brjóta þær? Kveikja í þeim? Lásasmiður? Leyniorð? Galdraorð? Hún leitar að tímapunktinum þegar dagurinn snýr aftur en finnur ekki. Tara og Thomas lifa hvort á sínum tíma. Ef til vill verður ekki snúið aftur. Höfundur bókarinnar hefur bætt við náttúrulögmáli og getur ekki þurrkað það út aftur.

#273. dagur ársins 2023

Ég fór, eftir lestur um líf Töru, á sýningu Íslenska dansflokksins í Borgarleikhúsinu, verkið nefnist The Simple Act of Letting Go eftir Tom Winberger. Það fjallar um tímann og minnið, um ólínulegt ferðalag. Lýsingin á verki ÍD rímar við Rúmmálsreikning I, „Verkið dekrar við sundrungu tímalínunnar og býður okkur að dansa víðáttumikið landslag tilfinninga og persónuleika“.

Tara er sögumaðurinn í bókinni, hún dansar milli daga og minninga, telur frá degi 121 til 366. Hún fylgist gaumgæfilega með öllu sem gerist, undrun hennar fjarar aldrei út. Tíminn streymir ekki aðeins í einum árfarvegi. „Taldi ég rétt?“ spyr hún sig þegar ár er liðið.

Verk Solvej Balle veitir einstaka sýn inn í hversdagsleikann. Leyfir lesanda að dvelja við stök smáatriði sem endurtaka sig og fylgjast á trúverðugan hátt með persónu sem öðlast reynslu sem ekki er aðgengileg öðrum og miðlar henni. Bókin er um svo margt sem vert er að hugsa um; athyglisgáfuna, undrun, minnið, samskipti, tímahugtakið, vana, alúð, hversdagsleika, endurtekningu og einsemd.

Ég hlakka til að fylgjast með Töru Selter, hún fer víst til Düsseldorf í næstu bók. Hlakka til að lesa næstu þýðingu, þetta er greinilega meistaraverk.

#273. dagur ársins 2023

Fyrsti október er fæðingardagur mömmu. Ég lauk við að skrifa þanka um bókina Rúmmálsreikningur I og nálin nemur staðar í laginu Ode to Every Man á línunni „That is my barely beating heart“.

#035. dagur ársins 2024

Dagurinn til að birta þessa þanka um bókina rann aldrei upp á árinu 2023 og nú er annar mánuður ársins 2024 genginn í garð. Líf mitt líður greinilega áfram, kannski of hratt.

Ég fór í millitíðinni til Kaupmannahafnar og keypti Om udregning af rumfang II í bókabúð Arnold Busck, 7. október 2023 kl. 17:29:02 stendur á kvittuninni og að sú sem afgreiddi mig héti Julie P.

Tara er á Hótel Du Lison í byrjun bókar nr. 2 en ég sem lesandi var í þotu á leið til Keflavíkur. Nú hef ég sjálfur gefið út bók, Vending, sem er um það að venda kvæði sínu í kross.

Öllu er afmörkuð stund, segir Prédikarinn, „að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,“ en nú hefur Solvej Balle brotist út út tímahugtakinu og hleypt okkur inn til að fylgja Töru Selter, sem er föst í og á tilteknum degi mánaðar, sem rennur upp árlega hjá okkur en daglega hjá henni. Er öllu afmörkuð stund?

#047. dagur ársins 2024

Hálft vaxandi tungl. Ég sá og hlustaði á Víking Heiðar Ólafsson leika Goldberg-tilbrigðin í Hörpu, 61 tónleikarnir af 100 í heimsreisu hans með verkið. Hvernig líður honum að endurtaka verkið svona oft? Hann segir að aðdáun hans á verkinu hafi vaxið. Hvernig liði honum ef tónleikatúrinn myndi festast og 61. skiptið kæmi alltaf aftur? Tónleikagestum liði eins og tónleikarnir væru í rauntíma en Víkingur myndi upplifa hina eilífu endurtekningu á 61. flutningi sínum.

Líkt og Goldberg-tilbrigðin eru aldrei fyrirsjáanleg, er enginn dagur Töru sjálfrar alveg fyrirsjáanlegur upp á punkt og prik, það er alltaf einhver óvænt vending. Daglega hefur einni nótu verið hnikað ef grannt er skoðað.

#048. dagur árins 2024

Hvað er Solvej Balle að rannsaka?

Greinilega tímahugtakið en ég ræddi við annan lesanda og hugur okkar rann til Nietzsche og eilífa endurtekningu hins sama og síðan til samlanda Balle eða Sörens Kierkegaard sem skrifaði bók um endurtekninguna, endurminninguna og undantekninguna.

Sennilega er Solvej Balle að rannsaka átökin milli endurminninga og endurtekninga í lífi Töru í anda Kirkegaards (það er bráðabirgðatilgátan mín). Eftir því sem 18. nóvember er endurtekinn oftar, þá dofnar endurminningin um 17. nóvember sem aðeins kom einu sinni.

Endurminningin er huglæg en endurtekningin hlutlæg. Það er oftast auðvelt að losna frá eða úr endurminningu en hvernig kemst maður út úr endurtekningunni? „Það hlýtur að vera mismunur sem hægt er að grípa í. Það hlýtur að vera tilbrigði. Breyting.“ (163). Einhvers staðar liggur undantekningin.

Viðeigandi er að vitna í Kirkegaard: „Því gerir endurtekningin manninn hamingjusaman, ef hún er möguleg, en endurminningin óhamingjusaman, að í endurtekningunni gefur hann sér tíma til að lifa …“ (47. Endurtekningin, HÍB. 2000).

Kannski mun Tara í næstu bókum gefa sér tíma til að lifa og finna frelsið í endurtekningunni?

Hér lýkur Þankanum Er öllu afmörkuð stund? I og biðin eftir næstu þýðingu hefst.

Previous
Previous

Hvers vegna skrifa rithöfundar?

Next
Next

Lífhverf viðhorf og hvalveiðar