Lífhverf viðhorf og hvalveiðar

Langreyður er næststærst allra hvala, einungis steypireyður er stærri og um leið næststærsta dýr jarðarinnar. Hún er fullvaxin 22 til 23 m á lengd og vegur þá 60 til 70 tonn. Langreyður er á lista IUCN yfir dýr í útrýmingarhættu. Öllum má vera ljóst að stórfelld brot á velferð dýra áttu sér stað við veiðar Hvals hf árið 2022.

Mannhverf (anthropocentric) viðhorf setja manninn í öndvegi, velferð hans og öryggi. Slík viðhorf eru hefðbundin í mannkynssögunni og hafa komið jarðlífinu í alvarlega stöðu. Til er önnur nútímalegri afstaða sem nefnist lífhverf viðhorf (biocentric) sem setja velferð dýra og lifandi vera í öndvegi, ekki veitir af því maðurinn hefur orðið valdur að útrýmingu þeirra en í dag er talið að allt að ein milljón dýra- og plöntutegunda sé á barmi útrýmingar. „Mann­hverf hugs­un, vél­hyggja og almennt sinnu­leysi er enn ríkj­andi. Við þurfum að laga þetta og hverfa til vist­hverfari gilda áður en sjötta útrým­ing­ar­bylgjan ríður yfir okkur af fullum þunga og nátt­úran deyr, líkt og áll­inn,“ skrifaði Snorri Baldursson 2021 en visthverf (ecocentric) viðhorf hafa megináherslu á heilbrigða náttúru, þar sem vistkerfum er ekki raskað.

Hvort vegur þyngra?

Fagráði um velferð dýra lýsti því yfir í sumar að miklir ágallar væru á veiðum á stórhvelum við Ísland sumarið 2022. Taldi ráðið að við veiðar á stórhvelum á Íslandi væri ekki hægt að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja velferð dýra við aflífun. Niðurstaða ráðsins er að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. En um þriðjungur þeirra hvala sem veiddir voru á vertíð 2022 háðu langt dauðastríð. Veiðarnar voru svo gallaðar að nauðsynlegt þótti að setja nýja og ítarlega reglugerð um veiðar á langreyðum með eftirliti.

Við þurfum alltaf að vega og meta, hvort vegur þyngra þegar tvennt stangast á, er það velferð næststærsta dýrs í heimi eða eru hagsmunir eiganda báts á stöðugri siglingu, þar sem það tekur langan tíma að hlaða byssuna aftur til að hitta gera hvalkálf móðurlausan?

Skyldan að valda dýrum sem minnstum sársauka

Í lögum um dýravernd stendur:  Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.

Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Við veiðar á villtum dýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Eldri grein Gunnars í Heimildinni: Tilfinningamál fyrir langreyður

Meðalhóf í dýraníði eftir Andrés Skúlason

Teikning/Jón Baldur Hlíðberg

Previous
Previous

Er öllu afmörkuð stund?

Next
Next

Að hætta að drekka áfengi