Áfengi er afleitt svefnmeðal
Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, og Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og doktor í svefnrannsóknum, velta fyrir sér kostum og ókostum áfengislauss lífsstíls, aðallega kostum samt. Annað þeirra hefur tileinkað sér vínlausan lífsstíl en hitt er meðvitað um fórnarkostnaðinn við áfengisneyslu. En eitt er víst: Áfengi er afleitt svefnmeðal.
Viðtal í febrúar 2024.
Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, hafði leitt að því hugann um árabil að tileinka sér vínlausan lífsstíl. Lífsgildi hafa verið honum hugleikin lengi og með þrjú slík í huga; skýran huga, skapandi hjarta og hraustan heila, ákvað hann að tileinka sér vínlausan lífsstíl. En það tók tíma.
„Allir eru með sína veikleika og styrkleika. Ég hugsaði að mig langaði að gera ákveðna hluti, skrifa ákveðna bók í framtíðinni. Vín tefur mig, eða tefur áformin. Eins og flestir vita getur maður tapað heilum degi eftir að hafa drukkið. Maður verður kærulausari, þetta tekur allt lengri tíma. Það bitnar líka á vinnu,“ segir Gunnar Hersveinn. Það liðu því nokkur ár áður en hann lét slag standa.
Áfengi er alltumlykjandi, löngunin nýtur almennrar velvildar í samfélagi þar sem vín er sífellt í boði eins og Gunnar Hersveinn kemst sjálfur að orði. „Allt samfélagið er alkóhóliserað finnst mér, og verður alltaf meira og meira. Hvert sem þú ferð er boðið upp á vín.“ Sjálfur var hann búinn að gera margar tilraunir til að sleppa víninu, í mislangan tíma hverju sinni en aldrei lengur en sex mánuði. Svo fann hann aðferðina, sem fólst í meiru en bara viljastyrk. „Viljastyrkurinn getur fjarað út og svo er einhver rödd sem segir: Þú getur þetta alveg, þetta er ekkert mál.“
Aðferðin fólst í hans styrkleika: Skrifum. „Sennilega af því að ég er rithöfundur fór ég að skrifa, af því mér finnst ég skilja hlutina betur ef ég skrifa. Svo fór ég að lesa mér til, bæði í lýðheilsuvísindum og lesa alls konar bækur. Þá rann upp fyrir mér hvað alkóhól er slæmt fyrir líkamann, öll líffærin og heilann. Það er ekki mikið talað um það. Og svefninn. Það var til einhver mýta sem segir að það sé gott að fá sér einn fyrir svefninn, þá sefur þú betur. Þú kannski sofnar fyrr en svo vaknar þú um miðja nótt og það verður lélegur svefn.“
Að efla kosti og dempa ókosti
Þar kom að því að Gunnar Hersveinn sagði alveg skilið við áfengið. „Ég hætti alveg. Þetta var langtímamarkmið en ég vissi ekki alveg hvernig þetta myndi heppnast. Ég er með dagbók og fór að skrá niður ef ég fékk mér vín, þannig ég fylgdist með því, út af markmiðinu að reyna að hætta alveg. Ég gat þess vegna talið dagana. Mér finnst ég hafa verið alveg þrjú ár að æfa mig, undirbúa mig og æfa mig, andlega og líkamlega.“
Skrifin urðu að bók, Vending – vínlaus lífsstíl, sem kom út í upphafi árs. Gunnari Hersveini datt ekki í hug að gefa bókina út fyrir jól, í miðju jólabóka- og áfengisflóði. „Það myndi enginn hlusta á mig í desember,“ segir hann og hlær. „Aðventan, jólahlaðborðin, það eru allir orðnir gegnumsósaðir. Svo vakna þeir upp á nýársdag og eru tilbúnir.“
Bókin er fyrir fólk sem vill endurmóta líf sitt, velja sér gildi, efla kosti og dempa ókosti. Fólk sem vill tileinka sér vínlausan lífsstíl, bæta sjálfskilning og ná árangri. „Þetta voru svona umskipti, að breyta einhverju eða skipta um lífsstíl, að venda kvæði sínu í kross. Þá fannst mér nafnið kjörið upp á að skipta um lífsstíl,“ segir Gunnar Hersveinn. Nafnið vísar því til þeirra sem vantar vendipunkt, verkfæri, kraft, samtal og lífsgildi til að stíga skrefið.
Slæmt bjargráð
Áfengisneysla hefur áhrif á ótalmargt og þar spilar svefninn, eða gæði hans öllu heldur, stórt hlutverk. Erla Björnsdóttir sálfræðingur er með doktorsgráðu í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands og fáir þekkja svefninn og áhrif hans betur en hún. „Það er svo ótal margt sem hefur áhrif á svefninn og áfengið er mjög sterkur þáttur sem við vitum að hefur neikvæð áhrif á gæði svefns.“
Erla nefnir sama dæmi og Gunnar Hersveinn; að það hafi lengi tíðkast að „fá sér einn fyrir svefninn“. „Vissulega getur áfengi róað taugarnar og sljóvgað mann og flýtt því að maður sofni, en maður borgar margfalt fyrir það í lakari svefngæðum,“ segir Erla. Áfengi hefur einna helst áhrif á draumsvefn, svokallaðan REM-svefn, sem verður minna af við áfengisneyslu. „Sumir finna það að ef þeir drekka mikið áfengi í tvo til þrjá daga og sofna svo á degi fjögur án þess að drekka áfengi þá dreymir þá svakalega mikið, það er eins og heilinn sé að reyna að vinna upp allan þennan tapaða draumsvefn, en hann nær því náttúrlega ekki, því draumsvefninn er rosalega mikilvægur fyrir okkur, fyrir mjög margar sakir, meðal annars fyrir úrvinnslu tilfinninga, fyrir andlegt jafnvægi, hugræna færni, minni, samhæfingu og fleira. Hann skiptir mjög miklu máli. Ef við erum að missa hann reglulega þá hefur það áhrif.“
Svefnleysi hefur víðtæk neikvæð áhrif á alla þætti daglegs lífs. Erla segir það skiljanlegt að fólk leiti í áfengi fyrir svefninn, það hafi löngum verið talið gott húsráð. Einn kaldur eða smá sérrí fyrir svefninn. „Þá fer það að vera einhver vani en samt sem áður heldur svefninn áfram að vera slæmur. Þannig þú heldur áfram að leita í slæm bjargráð og áfengi er mjög gott dæmi um slæmt bjargráð sem margir leita í til að deyfa eitthvað, draga úr streitu, til að hjálpa sér að sofna, en fatta ekki að þetta slæma bjargráð er í raun að viðhalda vandanum og halda þér inni í vítahringnum.“
Erla og Gunnar Hersveinn sameinuðu krafta sína í vikunni og efndu til heimspekikaffis þar sem þau ræddu áhrif áfengis á gæði svefns. „Góður svefn er svo mikilvægur. Ónýtur svefn gerir fólk hálfdauflegt allan daginn,“ segir Gunnar Hersveinn. Fjölmargar rannsóknir sýna einmitt það, að áfengi minnkar svefngæðin. „Það verður meira rof á svefninum, við vöknum oftar upp á nóttunni, hlutfall djúpsvefns og draumsvefns raskast þannig að fólk finnur það þegar það vaknar daginn eftir og ég held að flestir tengi við það sem hafa drukkið áfengi að maður er ekki jafn vel úthvíldur eins og maður er venjulega,“ segir Erla.
Þurr janúar og edrúar febrúar
Erla drekkur sjálf áfengi en hefur hvert ár á áfengislausum janúar og febrúar, óháð átökunum þurr janúar og edrúar í febrúar sem hafa verið að ryðja sér til rúms, en þessir mánuðir eru annasamir hjá Erlu þegar kemur að vinnu. „Mér finnst það rosalega mikilvægt að gera það, bæði til að upplifa að ég hafi stjórn og líka til að finna að hausinn er 100 prósent.“ Erla sefur með hring, snjallhring, sem mælir svefngæðin og hún finnur mikinn mun þegar hún drekkur áfengi, sama hversu lítið það er. Svefneinkunnin er mun lægri þegar hún drekkur áfengi. „Það felur í sér að ég er að fá minni endurnæringu, ég er að fá minni hvíld, það er meira rof á svefninum, það er meiri vökutími yfir nóttina þó ég fatti það ekki sjálf. Það eru meiri örvökur, við erum að vakna upp úr svefni, við kannski komumst ekki alveg til meðvitundar en það truflar svefngæðin. Þegar maður horfir á þetta svart á hvítu þá hefur það auðvitað áhrif á mann.“
Hún hefur því velt því fyrir sér hvort það sé þess virði að drekka ekki nema eitt vínglas? „Það er mjög áhugavert, rannsóknir sýna það að þú þarft mjög lítið magn af áfengi til þess að trufla svefngæðin. Það er talað um að eitt til tvö glös sýni tíu prósent minnkun á svefngæðum. Eftir því sem drykkjunum fjölgar verða áhrifin meiri og það skiptir máli hversu sterkt áfengi þú ert að drekka, hversu hratt þú ert að drekka og hversu nálægt háttatíma. Því meira sem þú drekkur, því hraðar, nær háttatíma, því verra. Eðlilega. Þetta hefur allt áhrif. Þetta er afleitt svefnmeðal. Fólk notar þetta stundum til að sofa en það skilar ekki góðum árangri.“
Meðvitund um áhrif áfengisneyslu skiptir máli að mati Erlu. „Við lokum oft eyrunum fyrir því sem við viljum ekki heyra, eins og hvaða skaðlegu áhrif alkóhól hefur á mann, það er alveg mikilvægt að maður sé meðvitaður um það. Þó að þú veljir þér að drekka þarftu samt að vita að þú borgar skatt fyrir það, ég mun ekki fá góðan svefn og verð ekki eins virk á morgun. Maður þarf líka að vera upplýstur.“
Ekki meðferðarúrræði
Veikleikinn er í brennidepli í bók Gunnars Hersveins. Sterka löngunin í það sem truflar, hvort sem það er ávanabindandi áfengi eða annað sem veldur usla í lífinu. „Áfengi er náttúrlega ávanabindandi efni. Það kemur löngun í það og það er umhverfis allt, það er verið að hella í glösin. Það var ekki fyrr en ég tók ákvörðun: Þetta er búið,“ segir Gunnar Hersveinn og segir það ákveðinn létti að þurfa ekki lengur að hugsa hvort hann eigi að fá sér eða ekki. „Þá uppgötvaði ég tvær raddir: Það er skynsemin og svo er önnur letjandi, sem segir bara að þetta sé allt í lagi á meðan hin vísar meira í styrkleikana: Vakna snemma á morgun og skrifa. Mér tókst að nota þá rödd eða láta hana vera ríkjandi.“
Bókin er hugsuð sem leiðarvísir fyrir hinn venjulega Íslending sem drekkur aðeins of mikið, eða aðeins of oft og er kærulaus. „Þú þarft ekki að fara á botninn til að hætta að drekka. Ég var sannfærður um að þessi markhópur væri þarna eða að það vildi einhver hlusta á þetta. Ég tók áhættuna með það. Það hefðu alveg eins allir getað lokað eyrunum og ekki viljað hlusta á þetta.“
Þótt undirtitill bókarinnar snúi að vínlausum lífsstíl einskorðast lífsgildin sem í henni er að finna ekki við áfengisneyslu. „Ég skrifa þetta þannig að fleiri geti nýtt sér þetta sem vilja hætta einhverju öðru, það er talað um styrkleika og lífsgildi og hvernig þú vinnur bug á veikleikum eða dempar þá niður. Það eru engin fyrirmæli, þú velur þín lífsgildi og þína leið.“ Gunnar Hersveinn gerir sér grein fyrir að bókin sem slík er ekki meðferðarúrræði. Það eru aðrir sem eru að vinna fyrir þá sem eru komnir á botninn. Bókin er fyrir þau sem vilja efla styrkleika og dempa veikleikana. Ég er ekki að þykjast geta hjálpað þeim sem eru alvarlega veikir. Ég er að tala til fjöldans. Fólk getur hætt og bætt lífsgæðin og komið í veg fyrir hjá sumum, sem eru alveg á mörkunum, að þau fari vitlausum megin.“
Erla og Gunnar Hersveinn eru sammála um að aukin umræða um áfengisneyslu sé af hinu góða og sjáist það til að mynda á viðbrögðum sem fólk fær sem kýs að lifa áfengislausum lífsstíl. Viðmót til þeirra hefur breyst. „Áður fyrr var þetta, annaðhvort ertu alki eða þú drekkur ekki. „Hvað er að þér? Ertu svona leiðinlegur eða?“ Það var svolítið viðmótið,“ segir Erla, ef fólk kaus að eigin frumkvæði að neyta ekki áfengis. En það er að breytast. „Mér finnst það orðið viðurkenndara, ég er samt alveg sammála því að áfengisneysla er gríðarlega mikil í samfélaginu, hún er tengd eiginlega öllu sem við erum að gera. En mér finnst það samt orðið viðurkenndara að velja að drekka ekki.“
Erla segist taka vel eftir því að margir kjósi að hefja nýtt ár með áfengislausum lífsstíl, sem eiga það svo til að teygjast yfir í fleiri mánuði. Það sem var þurr janúar framlengist í edrúar febrúar. „Þetta eru breytingar sem eru jákvæðar. Ég held að svona umræða, svona bók, hjálpi til við að fólk hugsi að það geti valið sér þennan lífsstíl líka. Ég þarf ekki að vera með skilgreindan vanda eða vera á botninum til að gera þetta,“ segir Erla og Gunnar Hersveinn tekur undir. „Það eru fleiri að stíga fram og eru ekki feimnir við að tala um það.“
Viðtal: Erla María Markúsdóttir við Erlu og Gunnar Heimildin. 6. febrúar 2024 https://heimildin.is/grein/20693/afengi-er-afleitt-svefnmedal/
Viðtal við Ernu Sif Arnardóttur: Góður svefn er verndandi (Heimildin 8. nóv. 2025)
Viðtal við Ölmu Möller um það að breyta klukkunni (Mbl.is, 12.11.2025).
Sjá kaflann Undir áhrifum í bók Sæunnar Kjartansdóttur: Gáfaða dýrið. MM 2024).