Að velja sér gildi

Vending – vínlaus lífsstíll er bók fyrir fólk sem vill endurmóta líf sitt, velja sér gildi, efla kosti og dempa ókosti, fólk sem vill tileinka sér vínlausan lífsstíl  til að bæta sjálfsskilning og til að blómstra og ná árangri.

Það eru hindranir, eitthvað hefur staðið í veginum. Við getum líka hengt fótakeflið á okkur sjálf. Góðu fréttirnar eru þær að í sumum tilvikum getur einstaklingurinn sjálfur losað bandið og kastað af sér keflinu – af eigin rammleik óháð því hvernig það er tilkomið.

Torleiði ferðalangs sem þarf að burðast með fótakefli verður léttfært um leið og snærið er losað og rekaviðarbúturinn hefur verið skilinn eftir á veginum (Vending, bls 10-11).

Hvernig fetum við veg hamingjunnar? Hverju þurfum við að breyta, tileinka okkur eða losa okkur við? Hamingjan breiðist út þegar við hættum að vera sífellt í brokkgengu bataferli og verðum heil til lengri tíma.

Enginn getur viðhaldið hamingjunni nema með því að sinna þeim verkefnum vel sem hver og einn hefur ætlað sér, og takast daglega á við þær áskoranir sem felast í því að vera manneskja.

HAMINGJA

Hamingjan er ekki afmarkað gildi sem hægt er að efla með sér eða draga úr. Hún er safn margvíslegra þátta og ástundunar. Hún er afstaða til hlutanna, jákvæður hugur eða raunsær.

Hamingjan þarf oft á nægjusemi og sjálfsaga að halda, tíma til að skapa og vinna. Hún má alls ekki blandast ókostum eins og sjálfsvorkunn og öfund, því þá dregur verulega úr henni.

Það sem einkennir hamingjusama manneskju er sjálfsstjórn.

Enginn getur viðhaldið hamingjunni nema með því að sinna þeim verkefnum vel sem hver og einn hefur ætlað sér, og takast daglega á við þær áskoranir sem felast í því að vera manneskja.

Aðalatriðið er að lifa í samræmi við lífið, það sem veitir vöxt og viðgang. Hamingju fylgir rósemd hjartans og hún er nátengd gleðinni sem sprettur af verkunum. Hún er safn markmiða sem hefur verið náð, og ekki náð, því við erum líka það sem við glötum.

BYRJANDI

Hvernig skal byrja á nýjum lífsstíl? Byrjar hann bara sjálfur eða byrja ég eða gerum við þetta saman? Byrjunin sem slík er ósýnileg því allt líður bara áfram, það er ekkert hik á tímanum. Er ekki gott að vera byrjandi í sínum eigin aðstæðum? Allt sem er að gerast er ný byrjun. Ég er ekki eitthvað heldur ætla ég að verða eitthvað. Lífið er verðandi, ég er verðandi.

Nýjum lífsreglum og breyttum lífsstíl fylgir betri/meiri: svefn, sköpun, tími, umhyggja, minni, gáfa, agi, iðja, örlæti, auðmýkt, einlægni, kærleikur, hjarta, líkami, gleði …

Við þurfum því að stilla á hug byrjandans.

FRELSI

Frelsi - að lifa í frelsi frá einhverju og til að geta gert eitthvað, vera laus undan oki og ánauð. Ekki til að geta gert hvað sem er gagnvart hverju og hverjum sem er hvenær sem vera vill, heldur til að efla sjálfsaga og geta sett sér skynsamleg mörk.

Í lífinu hefur maður tilhneigingu til að verða annar en til stóð. Við erum þó áfram frjáls til að gera og vera eitthvað annað en það. Við setjum okkur það markmið að vinna tiltekið afrek og mætum óhjákvæmilega hindrunum á leiðinni.

AÐ VELJA SÉR GILDI

Að breyta sjálfum sér felst í frelsun frá því sem truflar okkur og krafti til að vinna verkið sem gjöfin býður upp á. Dr. Jeffrey Schwarts og dr. Gabor Maté hafa orðað þessa lykla sem snúast að því að yfirvinna fíkn og mig langar til að endurorða þá hér sem athygli, ábyrgð, biðlund, afhjúpun og sköpun.

  • Athygli. Ég tek eftir og undrast þrálát skilaboð frá eigin hugarstarfi og umhverfi sem eru óheppileg fyrir mig. Ávaninn sem ég hef tileinkað mér afhjúpast. Ég átta mig og beini athyglinni annað. Ég þarf ekki það sem vaninn kallar á og vil það ekki.

  • Ábyrgð. Ég tek ábyrgð á eigin viðhorfum, endurhugsa og ákveð að læra að gera greinarmun á heppilegum og óheppilegum skilaboðum úr eigin hugarstarfi. Hætti að fylgja ávana og festi augun á frelsið sem bíður mín.

  • Biðlund. Ég bíð, læt þörfina líða hjá og yfirbuga óvininn með því að velja eitthvað annað sem gleður mig. Svarið felst í því sem ég geri, ekki hvernig mér líður hverju sinni. Ég kenni heilanum að þetta sé ósiður sem ég verði nauðsynlega að losna undan.

  • Afhjúpun. Ég afhjúpa veikleikann, horfist í augu við tvífarann, hætti að elta hann og skipa honum í hlutverk skuggans. Innra með mér býr gjöf sem ég vil gefa, ég veit hvað ég vil gera og hvað truflar mig. Ég er frjáls og kærleikur og metnaður knýr mig áfram.

  • Sköpun. Ég endurskipulegg ferðalagið og brýni sjálfan mig, einbeiti mér að því að vinna verkið eða opna betur fyrir gjöfinni. Smátt og smátt breytist vaninn varanlega og hugarstarfið styður kröftuglega við áform mín.

Þannig breyti ég sjálfum mér, hugarstarfinu og umhverfinu. Slít af mér fótakeflið og fer þangað sem ég vil fara. Læt ekki leiða mig þangað sem ég vil ekki fara, hætti að leggja saman hendurnar til að hvílast ögn lengur í fíkninni.

Áður en ég fann lausnina skorti mig eitthvert verkfæri til að sleppa alveg undan ánauð vanans, eins og mig langaði. Ég rataði hjáleiðina og yfirgaf vímuefnið sáttur. Ég gerði það í samræmi við gildin sem ég hafði tileinkað mér.

Ég tæmdi mig (e. kenosis), lagði sjálfið til hliðar og fylltist löngun til að undirbúa mig til að hjálpa öðrum í samfélagi víns og rósa, að efla aðra hlið eða hvel sjálfsins með því að skrifa þetta rit.

Ef við teflum fram styrkleika og eflum hann þá dofnar veikleikinn.

GJÖFIN

Hver er innri gjöfin þín? Hvað var mér gefið í vöggugjöf? Ef ég rækta það sem mér var gefið verður það mér og öðrum til góðs. Ein af fimm leiðum að vellíðan sem Embætti landlæknis mælir með, til að byggja upp geðheilbrigði, er „Gefum af okkur“:

Gerum eitthvað fallegt fyrir vin eða ókunnuga manneskju. Sýnum þakklæti. Brosum. Gefum öðrum af tíma okkar. Að sjá okkur sem hluta af stærra samhengi veitir lífsfyllingu og eflir tengsl við aðra.

Gjöfin er hæfileiki til að leita að svari, innsæi, þolinmæði til að feta sig áfram með huga og hönd. Ekki gefast upp, haltu áfram, ef þetta tekst þá getur afrekið orðið öðrum að liði. Við finnum hver vöggugjöfin er, þegar við gefum af okkur.

HARÐFYLGNI

Það krefst hugrekkis að þora að vera sá sem maður vill vera og láta drauma sína rætast. Á bak við hugrekki býr löngun til að gera eitthvað, ótti gagnvart því og þor til að taka áhættuna. Hugrekki fylgir ákvörðun til að stökkva yfir hindrun.

Vímuefni raska óhjákvæmilega slíkum áformum, þau vekja upp þrár sem reisa farartálma, brenna brýr og raska greiðum leiðum. 

Það kostar hugrekki að vera öðruvísi, vera sú eina í hópnum sem ekki neytir áfengis og brjóta í bága við vínmenninguna sem ríkir í samfélaginu.

Hugrekki þarf til að hopa ekki á hæli undan sefjun fjöldans. Gleðin felst í því að standast eitrið en ekki í því að láta undan því og falla.

Harðfylgni og hugrekki eru nátengd gildi, ef við nýtum okkur kraftinn sem þau geyma, þá er mun líklegra að við náum ákjósanlegum árangri. Ef ekki, þá þurfum við bara að rétta út hendurnar og láta tvífarann/þrána/aðra teyma okkur þangað sem við viljum ekki fara.

SJÁLFSAGI

Sjálfsagi er fólginn í því að læra að synda á móti straumnum. Ef við temjum okkur ekki sjálfsaga er meiri hætta á því að við gleypum gagnrýnislaust við því sem aðrir bjóða upp á og tileinkum okkur óæskilega hjarðhegðun. Sjálfsagi er þýðingarmikið lífsgildi þegar markmiðið er að vakna upp af doðanum og ganga allsgáður til verka.

Sérhver maður sem ætlar að verða sá sem hann vill vera hlýtur að beita sig sjálfsaga. Aginn eykur þroska til að vega og meta, neita og játa. Agi er að ganga veginn en ráfa ekki um vegleysur. Sjálfsþekking þarfnast sjálfsagans því hann er innri vegur til hverrar persónu og tryggasta leiðin til að ná markmiðum sínum.

Sjálfsaginn felst í því að fækka löngunum sem á að fullnægja, velja úr til að ná einhverjum árangri. Verkefnið er að hemja og temja óbeislaðar þarfir einstaklings, stilla og fínstilla. Sjálfsagi til að standast, agi til að þora, agi til að hætta við, agi til að vinna afrek.

Til að standast freistinguna þurfum við lífsgildin. Til að mynda góðvild sem leiðarljós, sjálfsaga til að ganga stíginn upp á yfirborðið og harðfylgni til að standast freistinguna að líta til baka. 

VEIKLEIKI – STYRKLEIKI

Ef til vill er hver og einn haldinn einum lesti sem er lúmskari en aðrir mannlegir ókostir. Ef honum er hleypt að þá bítur hann strax.

Hvaða veikleiki kom í veg fyrir að mér tækist að gera það sem ég vildi gera? Sennilega var það linkindin. Til að draga úr áhrifum hennar þurfti ég að efla styrkleikana. Gildin mín voru komin á hreint og styrkleikarnir urðu gleði, frelsi og þakklæti.

Ávallt skal finna og tefla fram réttum styrkleika andspænis veikleika.

Að þurfa ekki á viljastyrk að halda til að vinna gott dagsverk er mögnuð útfærsla sem fjallað er um í bókinni Vending. „Freistingarnar líða fram hjá mér, hitta mig ekki fyrir. Eftir að ég tamdi hugann öðlaðist ég langtímafrelsi án löngunar, laust við óttann. Ég er heill án átaka við óvininn (bls. 76).“

GÓÐVILD

Enginn verður hamingjusamur með því að hugsa einungis um sjálfan sig – heldur með því að gefa af sjálfum sér, gefa öðrum og sýna þeim góðvild. Þetta þarf að æfa eins og aðrar dyggðir. Allir eiga vissulega að elska sjálfan sig og hafa metnað til að verða hæfileikarík manneskja. Það er nauðsynlegt en það er ekki sjálfselskan sem gerir fólk hamingjusamt heldur góðvildin.

Góðvild er nátengd farsælu lífi. Hún er dygð alls mannkyns og hamingjan er falin í þeirri athöfn að sýna öðrum góðvild. Það er lofsvert að gera eitthvað fyrir aðra og það er gefandi því fólk er þakklátt og það byggir upp hamingju.

Hamingjan felst í góðum og uppbyggilegum samskiptum við annað fólk. Þau sem vilja kynnast mætti góðvildar finna hana í brjóstinu, rækta hana, æfa með öðrum og breiða út boðskapinn.

Reglur góðvildar breyta hugarfari, hegðun og tjáningu, ef þeim er fylgt, þær geta verið fjórar, fimm, sjö eða tíu. Hér eru fjórar:

  • Ég særi enga ef ég rækta góðvild, hvorki sjálfan mig né aðra.

  • Ég rækta vinsemd ef ég gef öðrum af kærleika en tek ekki frá þeim.

  • Ég vernda gæði með vinsemd, jafnt annarra sem eigin.

  • Ég gef öðrum með gleði en gleymi ekki sjálfum mér.

Gildin vernda fyrir andstæðingum, okkar eigin skugga sem er agalaus og sérhlífinn úlfur í sauðagæru. Við þurfum góðvild til að byggja okkur upp.

Þetta eru ekki skyndileg hamskipti heldur hægfara umbreyting. Fólk þarf að máta sig í þessum sporum. Við þurfum skýran huga, skapandi hjarta og hraustan heila. Sköpum góð skilyrði fyrir undrun – sem er dýrmæt gjöf.

Það er jafnspennandi verkefni að hætta einhverju gömlu eins og að byrja á einhverju nýju. Að hætta einu merkir að byrja á einhverju öðru. Það opnar nýja vídd í tilverunni.

Previous
Previous

Áfengi er afleitt svefnmeðal

Next
Next

Reglur fyrir þau sem vilja drekka áfengi