Að temja sér vínlausan lífsstíl

Nýársgjöf: að temja sér vínlausan lífsstíl.

Hvernig skal hefja nýjan lífsstíl? Ef verkefnið er að temja sér sjálfsaga á ákveðnum sviðum, höndla veikleika, efla styrkleika og markmiðið að bæta lífsgæðin og heilsuna, þá verður vínlaus lífsstíll lærdómsríkt ferli. Það mun vissulega reyna á hugrekki, sjálfsaga, gleði, hreinskilni, stolt, úthald, fyrirgefningu og nægjusemi, viðhorf og ábyrgð – en það er þess virði.

Það er mikilvægt að sinna sínu og gera allt vel - en að vinna gott verk krefst þess að ögra sjálfum sér og ná fram betri frammistöðu en búast mætti við með því að hækka slána og öðlast hugrekki til að stökkva yfir.

Að temja sér vínlausan lífsstíll felst í því: að njóta gæða lífsins betur og lengur en hægt er í fylgd áfengis, að vera betur í stakk búin til að vinna önnur verkefni í lífinu vel og að vera alltaf til staðar.

Sjaldan afrekar ein stund margra daga forsómun, segir málshátturinn. Það er ekki nóg að vera vínlaus eina stund, því ein stund skapar ekki afrek heldur þarf að taka flestallar stundir undir það. Á sama hátt er stök ánægjustund ekki hamingjan heldur felst hún fremur í líferni.

Hvert verður afrekið þitt?

Hugtakið „afrek” í þessu samhengi er rúmgott og hver og einn getur valið sitt eigið afrek og stefnt á það. Meginatriðið er að vinna verkið af alúð og metnaði. Hver og einn velur sér einnig sín eigin lífsgildi sem gagnast til að vinna verkið – og sína eigin útfærslu.

Ekki hækka slána of hátt, ekki fresta því of lengi. Það kemur aukakraftur ef þið einbeitið ykkur. Fyrsta verkefnið er að gefa sér tíma og nýta þann tíma til að vinna að því. Annað verkefnið er að draga úr áreitum og óreiðu ytra og innra. Þriðja að vinna fyrst viðráðanlegt verkefni sem eins konar æfingu. Eitthvað, þar sem við þurfum að standa á tánum og teygja okkur í.

Til að eiga möguleika á að vinna það afrek sem þið teljið ykkur geta unnið er gott að setja sér lífsreglur og lífsgildi. Afrek þarfnast alls sem þið getið ræktað best og eflt með ykkur. Galdurinn er sá að ef það gengur vel, þá er líklegt að það fari að ganga enn betur, metnaður eykst og hugurinn styrkist í þeirri trú að markmiðin náist og afrekið verði að veruleika. Ekki fagna of snemma. Breytið fremur planinu, ekki markmiðinu.

Gjöfin og skugginn

Til að stappa í sig stálinu er gott að hugsa: „Innra með mér býr gjöf. Til að gefa hana þarf skýran huga, skapandi hjarta og hraustan heila.“ Spyrjum:Hver er innri gjöfin þín? Hvað var þér gefið í vöggugjöf?“

Við finnum hver vöggugjöfin er, þegar við gefum af okkur. Ef þú ræktar það sem þér var gefið verður það þér og öðrum til góðs. Gjöfin er eins og hreint drykkjarvatn, hún er dýrmæt og þarfnast virðingar. Það er auðvelt að gefa af sér og plássið sem losnar við gjöfina fyllist aftur.

Innra býr einnig andstæðingur sem þráir ekkert heitara en að koma í veg fyrir áformin. Baráttan snýst um að virkja sálargáfuna og hemja þennan andstæðing. Staðan róast eftir að hann sættir sig við að ráða ekki lengur för. Höfuðandstæðingurinn er okkar eigin innri skuggi, sá sem við viljum ekki vera. Við sættumst við hann.

Það er gott að temja sér hugarfar byrjandans og að kunna að bregðast við röddunum sem þráast við. Það er með öðrum orðum til rödd sem rær undirróður, hún er lúmsk og á meðan við siglum þöndum seglum þangað sem við viljum fara þá rær hún með árum sínum þangað sem við viljum ekki fara. Þetta er þekktur sálarþáttur sem einkennir manneskjuna, innri togstreita og það er vandasamt að ná jafnvægi og sjálfsstjórn. Það tekur því tíma að kveða niður þessa rödd, við þurfum að þekkja hana og átta okkur á henni. Besta gjöfin er að gefa sér tíma til að hlusta á sína innri rödd, anda rólega inn og út og nema svarið sem berst í hugann.

Nýr lífsstíll þarfnast hugarfars byrjandans

Í huga byrjandans eru möguleikarnir opnir en í huga vanans standa fáir möguleikar til boða. Hugur byrjandans er frjáls, því hann er ófyrirséður og laus við kreddur.

Í bókinni Vending – vínlaus lífsstíll set ég fram leið eða legg drög að verki sem lesendur geta hugsað sér vinna, „stóra verkefninu“, sem þarf að undirbúa og keppa að og til að ná því og til að geta unnið verkið af alúð og einbeitingu þarf að útiloka áfengi.

Til að velja líf án áfengis þarf að stóla á sjálfan sig og stilla huga byrjandans á afrekið. Eftir að hafa vikið burt því sem var okkur fjötur um fót, losnar eitthvað úr læðingi og við förum á flug eins og byrjendur. Til að afrekið heppnist þörfnumst við allra kosta okkar, þrautseigju, heppni og samvinnu við aðra.

Vín og annað sem nærir fíknina getur aðeins truflað og tafið fyrir því að verkin séu unnin af alúð. Þá styttist tíminn, svefninn fer úr skorðum, heilinn dofnar og sköpunargáfan skerðist.

Að losna við freistinguna

Eftir að hafa losnað úr álögum opnast tækifæri fyrir aðrar sálargáfur og tími gefst til að vinna verkin sem þarf að vinna. Gefum líkamanum tíma til að jafna sig og efla sig, verum þolinmóð og sjáum hvað gerist, það kemur smátt og smátt í ljós.

Við getum aðeins losnað undan veikleikanum með því að sinna honum ekki, næra hann ekki. Aðeins með því að vera frjáls frá honum. Það er gefandi að hætta fyrri breytni og endurnýjast í anda og hugsun. Það er að öðlast hugarfar byrjandans.

Áfengi er ávanabindandi efni. Það er gott að gefast endanlega upp á því og taka ákvörðun um að vera frjáls frá því. Það er ekki frelsi að hafa gott og greiðfært aðgengi að áfengi, það er meira í ætti við helsi eða að geta ekki neitað sér um það og vera háður því.

Til að geta hætt að næra veikleika sína þarf að sjá þá í réttu ljósi og snúa sér að styrkleikunum. Tökum ákvörðun um frelsi frá alkóhóli, frelsi undan ánauð viljans. Það er ágætt nýársheit. Þetta er spurning um ákvörðun um frelsi til frambúðar og farsældar. Við verðum frjáls þegar við erum laus við freistinguna.

Það er jafnspennandi verkefni að hætta einhverju gömlu eins og að byrja á einhverju nýju, að hætta ávana, losna undan venju og byrja þar af leiðandi á einhverju öðru. Að hætta einu merkir að byrja á einhverju öðru. Það opnar nýja vídd í tilverunni - á nýju ári.

Nýársgjöfin: Full af lífi - vínlaus lífsstíll námskeið frá 3. febrúar 2026! Á þriðjudagskvöldum kl. 19:30 í rúmgóðum og fallegum sal sem nefnist Von og er í Efstaleiti 7. Leiðbeinendur eru Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi. Námskeiðið er samstarfsverkefni leiðbeinenda og SÁÁ. Hægt er að skrá sig á heimasíðu SÁÁ. Námskeiðið er fyrir þau sem hafa áhuga á að kynnast vínlausum lífsstíl á uppbyggjandi hátt, vilja prófa að sleppa áfengi í nokkrar vikur og breyta neyslumynstri sínu, vilja fjölga gleðistundum, telja sig drekka áfengi aðeins of oft eða aðeins of mikið en geta ennþá hætt að drekka af eigin rammleik. Frekari upplýsingar.

Next
Next

Áfengi er afleitt svefnmeðal