Vending
vínlaus lífsstíll
skýr hugur, skapandi hjarta, hraustur heili
Full af lífi! – námskeið um vínlausan lífsstíl.
Námskeiðið hefst 22. október og lýkur 19. nóvember 2025
Verð: 38.900 kr. Staður: Von, Efstaleiti 7 – kl. 20 á miðvikudagskvöldum. Námskeiðið er hæft til styrkja hjá stéttarfélögum. Leiðbeinendur: Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi. Námskeiðið er samstarfsverkefni leiðbeinenda og SÁÁ.
Almennt: Að lifa án áfengis er gjöf. Það krefst hugrekkis að breyta líferni sínu og hætta því sem telst eðlilegt í samfélaginu. Þátttakendur á þessu námskeiði fá að kynnast aðferðum við að breyta um lífsstíl. Efnið fjallar um sjálfsaga og vellíðan, hvernig höndla beri veikleika og efla styrkleika. Á námskeiðinu er lyklum miðlað til að loka dyrum og opna aðrar til betri vegar. Það er gott að hætta því sem truflar og byrja á því sem veitir kraft. Að lifa án áfengis er betri gjöf en oft er talið og líkur á jákvæðum samskiptum aukast til muna. Þetta er lærdómsríkt ferli sem ber árangur en án sjálfsaga og taumhalds verður ekkert frelsi.
VENDING - vínlaus lífsstíll - bókin
Bókin Vending eftir Gunnar Hersvein kom út í janúar 2024. Þetta er bók fyrir fólk sem vill endurmóta líf sitt, velja sér gildi, efla kosti, dempa ókosti og tileinka sér vínlausan lífsstíl, bæta sjálfsskilning og ná árangri.
Gunnar Hersveinn er höfundur metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu. Bókin Vending fjallar um hvað þarf til þegar venda á kvæði sínu í kross.
Enginn verður hamingjusamur með því að hugsa einungis um sjálfan sig – heldur með því að gefa af sjálfum sér, gefa öðrum og sýna þeim góðvild. Þetta þarf að æfa eins og aðrar dygðir.
Bókin er skrifuð fyrir þau sem langar til að tileinka sér annan lífsstíl en vantar vendipunkt, verkfæri, kraft, samtal og lífsgildi til að stíga skrefið. Efnið er um sjálfsaga og vellíðan, hvernig höndla beri veikleika og efla styrkleika.
Höfundur skrifar efnið þannig að málið snýst ekki aðeins um hvernig tileinka megi sér vínlausan lífsstíl og bæta heilsuna heldur einnig um að auka líkur á að lesanda takist að ná markmiðum sínum, vinna þau verk sem hann hefur metnað til að vinna.
Lífsgildin gefa bókina út sem 88 blaðsíður.
„Ákvörðunin að velja að vera frjáls í stað þess að taka þetta á viljastyrk er áhugaverð. Er vilji allt sem þarf? Eins og iðulega er sagt eða er það klisja? Ef freistingin þarf alltaf að vera til staðar þá þurfum við á viljastyrk að halda. Án löngunar verður engin freisting og ef það er engin freisting til staðar þá þarf ekki viljastyrk til að standast hana.”
Vending, bls. 36